Sorry, english text is not ready...
Kapellan á Kirkjubæjarklaustri var vígð árið 1974 en hún var byggð í minningu séra Jóns Steingrímssonar eldklerks (1728-1791). Hann söng hina frægu Eldmessu þann 20. júlí árið 1783 í kirkjunni á Klaustri. Telja margir að Eldmessan hafi stöðvað hraunstrauminn sem þá ógnaði byggðinni. Staðurinn þar sem hraunstraumurinn stoppaði heitir nú Eldmessutangi og er vestan Systrastapa en kapellan stendur skammt austan við hinn gamla kirkjustað. Kirkja stóð á Kirkjubæjarklaustri til ársins 1859 þegar ákveðið var að flytja kirkjuna, vegna uppblásturs, að prestssetrinu að Prestsbakka. Gamli kirkjugarðurinn á Kirkjubæjarklaustri var girtur af með steyptum garði. Í garðinum eru nokkrir legsteinar, m.a. einn á gröf séra Jóns Steingrímssonar og Þórunnar konu hans. Einnig má þar sjá tóft gömlu kirkjunnar þar sem Eldmessan var sungin.
Hugmyndin um að reisa minnisvarða við legstein sr. Jóns og Þórunnar konu hans kom fyrst fram árið 1933. Það var þó ekki fyrr en þann 10. júlí árið 1966 sem eitthvað fór að gerast. Þá var haldinn fundur til að undirbúa minningarhátíð í tilefni af 175. árstíð sr. Jóns og ákveðið að byggja litla kirkju sem væri bæði guðshús og minnismerki. Til að svo mætti verða þurfti að leita til skaftfellskra bænda um framlög og var ákveðið að biðja þá um að gefa eitt haustlamb árlega í sex ár til byggingarinnar. Fyrir minningarhátíðina 7. ágúst sama ár höfðu yfir 100 bændur skuldbundið sig til að gefa slíka gjöf. Margar aðrar stórar og smáar gjafir fylgdu í kjölfarið næstu árin.
Bræðurnir Helgi og Vilhjálmur Hjálmarssynir, arkitektar, voru fengnir til að teikna kapelluna. Þeir gáfu síðan teikningarnar auk þess sem Helgi gaf alla sína vinnu við umsjón og eftirlit. Þykir kapellan mjög falleg og góður vitnisburður um verk meistara sinna, og hefur henni verið skipað í fremstu röð bygginga á síðari árum.
Heimild: Sjá hér