Sorry, english text is not ready...
Glaumbæjarkirkja er reist 1925-1926 og í henni er margt merkilegra gripa. Þar á meðal eru spjöld úr gömlum prédikunarstóli frá 1685 með myndum af Kristi, Pétri, Lúkasi, Matteusi, Markúsi, Maríu mey og krossfestingunni, sem prýða veggi kirkjunnar.
Arkitektar kirkjunnar voru Einar Erlendsson og Rögnvaldur Ólafsson. Ólafur Kristjánsson frá Ábæ var yfirsmiður kirkjunnar en Friðrik Pálsson múrari á Sauðárkróki sá um steypuvinnu og múrverk. Árið 1994 voru miklar endurbætur gerðar á kirkjunni, sem Hjörleifur Stefánsson arkitekt stýrði. Þá voru bekkirnir frá 1926 látnir víkja fyrir nýjum, en grátur (gráður) og prédikunarstóll, sem einnig voru smíðuð í kirkjuna 1926, héldu sér.
Nýr predikunarstóll var smíðaður fyrir nýja kirkju 1926 og sá gamli seldur á uppboði. Hann var tekinn sundur og spjöldin notuð fyrir farg á hey sem segir margt um nýtni og sjálfsbjargarviðleitni manna fyrr á árum og ólíkan tíðaranda og verðmætamat. Ekki voru stólspjöldin lengi notuð sem heyfarg því glöggur vegfarandi kom auga á þau og sagði frá þeim. Hann áði við heyfúlgu þar sem á voru hengdir timburflekar með merkilegum málverkum. Þekkti hann þar m.a. sjálfan Lykla-Pétur. Þessi ágæti vegfarandi keypti spjöldin og árið 1996 voru þau gefin kirkjunni.
Starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga sinnir gæslu á kirkjunni, sem er opin alla daga, yfir sumartímann.
Glaumbæjarkirkja er 7 km. frá vegamótum í Varmahlíð, frá þjóðvegi 1 og stendur við Sauðárkróksbraut nr. 75.
Heimild: Sjá hér
Mynd: A.More.S