Sorry, english text is not ready...
Reynistaðarkirkja er timburhús, 9,27 m að lengd og 5,49 m á breidd, með forkirkju, 1,76 m að lengd og 2,54 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþak en rislítið þak er á forkirkju. Á hverri hlið hans er bogadregið hljómop með vængjahlerum og undir þeim band umhverfis turninn. Hann stendur á lágum stalli. Kirkjan er klædd standandi plægðri borðaklæningu, strikaðri á brúnum, þök bárujárni og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar, þrír á kórbaki; einn hvorum megin altaris og einn heldur minni ofarlega á stafninum yfir prédikunarstól. Gluggi er á framstafni og annar á suðurhlið forkirkju. Í þeim er miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar. Strikaðar bríkur eru yfir gluggum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.
Heimild: Sjá hér
Mynd: A.More.S