Sorry, english text is not ready...
Árin 1933-1934 var byggður ljós- og hljóðviti á Sauðanesi, vestan mynnis Siglufjarðar. Fyrir vitavörð var klætt bárujárnsklætt timburhús, hæð og ris, á steinsteyptum kjallara og útihús. Á Sauðanesvita er 4 m hátt sænskt ljóshús með eirþaki en veggir eru steinsteyptir. Vitinn var útbúinn með 125° díoptískri 500 mm linsu og gasljóstækjum. Hann var raflýstur árið 1961 með straumi frá ljósavélum en gas haft til vara til ársins 1995. Þá var sett varapera í vitann, tengd rafgeymum.
Hljóðvitinn var einnig tekinn í notkun árið 1934 og sendi í þoku og dimmviðri þrjú hljóðmerki á mínútu. Hljóðmerkin voru: hljóð 2 sek. + þögn 5 sek. + hljóð 2 sek. + þögn 5 sek. + hljóð 2 sek. + þögn 44 sek. Hljóðvitinn var tekinn úr notkun árið 1992.
Vitarnir á Sauðanesi voru í tveimur turnum. Í þeim lægri, sem er nær sjónum, var hljóðvitinn en ljósvitinn er í þeim hærri. Á þeim báðum er stallað þakskegg og steinsteypt handrið með bogadregnum opum. Við efri hlið ljósvitans er lágreist varðstofa og við hana og vitaturnana báða er anddyri. Vélasalur og olíugeymsla eru í einnar hæðar viðbyggingu með lágu risþaki.
Á sjávarbakkanum neðan við vitann er vélknúið spil með gálga og bómu sem notuð var til að draga upp efni og nauðsynjar. Búnaður þessi var upphaflega settur upp í Aðalvík á Hornströndum af breska setuliðinu sem hafði þar bækistöðvar í síðari heimsstyrjöldinni.
Árið 1966 var fullt starf vitavarðar lagt niður og hætti Vitastofnun að bera kostnað af búsetu vitavarðar á jörðinni Engidal á Sauðanesi og tók hann jörðina á leigu.